Selfyssingar töpuðu nokkuð sannfærandi fyrir toppliði Hauka á útivelli í úrvalsdeild karla í handbolta í kvöld, 36-29.
Selfoss komst í 0-1 en eftir það höfðu Haukar frumkvæðið og leiddu allan leikinn. Staðan í hálfleik var 19-16.
Í upphafi seinni hálfleiks náði Selfoss að minnka muninn í 21-20 en þá spýttu Haukarnir í og náðu í kjölfarið fimm marka forskoti. Engin spenna var í leiknum á lokakaflanum.
Selfyssingar voru í basli í kvöld, sérstaklega í vörninni og lét Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, hafa það eftir sér í leikslok að liðið hafi átt sína verstu spretti í vetur í þessum leik.
Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 10/2 mörk, en hann skoraði megnið af sínum mörkum í fyrri hálfleik. Árni Steinn Steinþórsson skoraði 5 mörk, Hergeir Grímsson 4, Guðjón Baldur Ómarsson 3, Nökkvi Dan Elliðason og Atli Ævar Ingólfsson 2 og þeir Guðni Ingvarsson, Daníel Karl Gunnarsson og Tryggvi Þórisson skoruðu eitt mark hver.
Selfyssingar fengu litla markvörslu en Sölvi Ólafsson varði 7 skot í marki Selfoss og Einar Baldvin Baldvinsson 3.
Selfyssingar eru nú í 4. sæti deildarinnar með 11 stig, fimm stigum á eftir Haukum sem eru í toppsætinu.