Selfoss í fallsæti eftir tap gegn Grindavík

Guðrún Þóra Geirsdóttir skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir í fallsæti í 1. deild kvenna í knattspyrnu eftir 2-1 tap gegn Grindavík á útivelli í kvöld í jöfnum leik.

Liðin mættust á heimavelli Grindavíkur í Safamýrinni í Reykjavík. Grindvíkingar urðu fyrri til að skora. Eva Ýr Helgadóttir varði glæsilega skalla af stuttu færi en frákastið rataði beint á Grindvíking sem kom boltanum í netið.

Tíu mínútum síðar áttu Selfyssingar frábæra sókn sem lauk með marki Guðrúnar Þóru Geirsdóttur eftir frábæran undirbúning Magdalenu Reimus og Auðar Helgu Halldórsdóttur.

Staðan var 1-1 í hálfleik og sigurmark Grindvíkinga leit dagsins ljós þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum. Heimakonur spiluðu sig þá laglega í gegnum Selfossvörnina og skoruðu af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá vinstri.

Grindavík sótti meira í seinni hálfleiknum en Selfyssingar þjörmuðu vel að þeim síðustu tíu mínúturnar en tókst ekki að skora þrátt fyrir nokkur frábær færi.

Selfoss er nú í 9. sæti deildarinnar með 9 stig en Grindavík lyfti sér upp í 4. sætið með sigrinum en liðið er með 13 stig.

Fyrri greinMetkast Bryndísar Emblu skilaði silfurverðlaunum
Næsta greinEigendurnir sjá um þrifin svo starfsfólkið geti horft á leikinn