Selfoss í Meistaradeild Evrópu

Íslandsmeistarar Selfoss fara til Malmö eða Moskvu í vetur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Handknattleiksdeild Selfoss hefur skráð meistaraflokk karla til leiks í Meistaradeild Evrópu.

Selfoss vann sér rétt til þáttöku í Meistaradeildinni með því að vinna Íslandsmeistaratitilinn en Ísland á rétt á einu sæti í deildinni eftir mikla velgengi í Evrópukeppnum á síðustu árum. Þar spilar árangur Selfoss í Evrópukeppni félagsliða á síðasta tímabili með.

Stjórn deildarinnar segir að verkefnið sé gríðarlega krefjandi og kostnaðarsamt en það er bæði vilji og metnaður deildarinnar til að taka þátt í Meistaradeildinni þar sem liðið á möguleika á að spreyta sig á móti bestu liðum í heimi. Þá treystir deildin á öflugan stuðning Sveitarfélagsins Árborgar, stuðningsmanna og handknattleiksáhugafólks um allt land í þessu verkefni sem að okkar mati er mikilvægt fyrir framgang íþróttarinnar á Íslandi.

Dregið verður í keppninni 26. júní nk. og þá mun verða ljóst hvort um forkeppni verði að ræða eða hvort lið Selfoss komist beint inn í riðlakeppnina.

Fyrri greinAfsláttur í Raufarhólshelli á alþjóðlegum degi hella
Næsta greinVantaði mark frá þeim vínrauðu