Selfoss í toppsætið eftir góðan sigur

Agnes Sigurðardóttir verður illa undir í baráttunni við varnarmann Fylkis. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar halda áfram sigurgöngu sinni í Grill 66 deild kvenna í handbolta en í kvöld lagði Selfoss Fylki að velli í Hleðsluhöllinni, 22-17.

Það gekk þó ekki vel hjá Selfyssingum framan af því þær voru undir með 2-3 mörkum nær allan fyrri hálfleikinn. Selfoss skoraði hins vegar síðustu mörkin fyrir leikhlé og staðan var 11-11 í hálfleik.

Það var allt annað að sjá til Selfyssinga í seinni hálfleik, þar sem þær tóku forystuna með því að skora fyrstu þrjú mörkin og sigurinn var ekki í hættu eftir það. Selfoss náði mest sex marka forskoti en vann að lokum öruggan sigur, 22-17.

Katla María Magnúsdóttir var markahæst í liði Selfoss, hún nýtti sín skot vel og skoraði 8 mörk auk þess sem hún lét vel til sín taka í vörninni eins og allt Selfossliðið. Hulda Dís Þrastardóttir skoraði 4 mörk, Agnes Sigurðardóttir 3, Hólmfríður Arna Steinsdóttir og Elín Krista Sigurðardóttir 2 og þær Tinna Traustadóttir, Rakel Guðjónsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Henriette Østergård átti fínan leik í marki Selfoss, varði 12 skot og var með 46% markvörslu og Dröfn Sveinsdóttir varði 1 skot og var með 33% markvörslu.

Selfosskonur eru ósigraðar í deildinni og sitja nú í toppsætinu með 6 stig eftir þrjá leiki.

Fyrri greinGæði og gleði á bjórhátíð Ölverks
Næsta greinLögreglan stöðvaði próflausan flutningabílstjóra