Selfoss í undanúrslit eftir stórsigur á Fram

Anna María Friðgeirsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss tryggði sér sæti í undanúrslitum C-deildar Lengjubikarsins í knattspyrnu með 8-2 sigri á Fram á heimavelli í kvöld.

Það blés reyndar ekki byrlega hjá Selfossliðinu í upphafi því fram komst yfir eftir 29 sekúndna leik. Anna María Friðgeirsdóttir jafnaði leikinn fyrir Selfoss á 8. mínútu og hún var ekki hætt því hún bætti við þremur mörkum til viðbótar í fyrri hálfleik. Fram jafnaði 2-2 á 16. mínútu en Anna María átti síðasta orðið í fyrri hálfleik og staðan var 4-2 í leikhléinu.

Guðmunda Brynja Óladóttir kom Selfoss í 5-2 strax í upphafi seinni hálfleiks og á 62. mínútu skoraði Bergþóra Gná Hannesdóttir sjötta mark Selfoss. Anna María bætti fimmta marki sínu á markatöfluna á 70. mínútu og fimm mínútum síðar rak Guðmunda Brynja smiðshöggið á verðskuldaðan sigur með öðru marki sínu og áttunda marki Selfossliðsins.

Selfoss lauk keppni í sínum riðli með tíu stig, þrjá sigra og eitt jafntefli. Markatala liðsins er nokkuð sannfærandi, 22-4.

Ekki er ljóst hvaða liði Selfoss mætir í undanúrslitum en undanúrslitaleikirnir fara fram þann 5. maí.

Fyrri greinKjörstjórnin segir af sér
Næsta greinStormi spáð suðvestanlands