Selfyssingar eru komnir í undanúrslit Íslandsmóts karla í handbolta eftir ótrúlegan sigur á FH-ingum í þriðju viðureign liðanna í Kaplakrika í kvöld. Selfoss sigraði 33-38 eftir tvíframlengdan leik og gríðarlegar sveiflur og vann því einvígið við FH 2-1.
Selfoss byrjaði mjög vel í leiknum og náði fljótlega góðri forystu. Varnarleikurinn gekk vel og lipur tilþrif sáust í sókninni. Staðan í hálfleik var 11-15, Selfossi í vil.
Hlutirnir litu vel út í upphafi síðari hálfleiks og Selfoss náði mest sjö marka forskoti, 13-20. FH-ingar komu sér hægt og bítandi inn í leikinn aftur og á síðustu tíu mínútunum fóru leikar heldur betur að æsast. Heimamenn höfðu byr í seglin og á sama tíma fór allt í skrúfuna hjá Selfyssingum. FH jafnaði 25-25 þegar þrjár mínútur voru eftir og á lokamínútunni átti FH síðustu sóknina, en hún fór í súginn. Staðan eftir venjulegan leiktíma 28-28.
Því var gripið til framlengingar sem var hnífjöfn, mikil barátta og lítið skorað. FH átti aftur síðustu sóknina en hittu ekki á markið og staðan eftir 2×5 mínútur 30-30. Þá þurfti að flauta til annarrar framlengingar og þar kom í ljós að Selfyssingar áttu meira á tanknum. Þeir leiddu alla framlenginguna og í seinni hluta hennar voru þeir komnir með gott forskot.
Eins og venjulega voru Selfyssingar vel studdir í stúkunni og vínrauði herinn fagnaði vel í leikslok. Selfoss fær verðugt verkefni í undanúrslitunum, þeir mæta deildarmeisturum Vals, en í hinni viðureigninni mætast Haukar og ÍBV.
Hergeir Grímsson og Guðmundur Hólmar Helgason voru markahæstir Selfyssinga í kvöld. Hergeir skoraði 9/5 mörk og Guðmundur Hólmar 9/2. Ragnar Jóhannsson skoraði 7 mörk, Alexander Egan 5, Richard Sæþór Sigurðsson og Tryggvi Þórisson 3 og Atli Ævar Ingólfsson 2.
Vilius Rasimas varði 20/2 skot í marki Selfoss og var með 38% markvörslu og Sölvi Ólafsson varði 1/1 skot og var með 50% markvörslu.