Selfoss sigraði Víking í spennutrylli í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni 1. deildar karla í handbolta í kvöld. Tvöfalda framlengingu til að knýja fram úrslit en Selfoss sigraði að lokum 34-35.
Selfyssingar sópuðu því Víkingum úr keppni og mæta næst Gróttu í einvígi um sæti í úrvalsdeildinni á næsta keppnistímabili.
Selfoss komst í 3-7 í upphafi leiks en Víkingur jafnaði 11-11 þegar sex mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Staðan í leikhléi var 14-15.
Í upphafi seinni hálfleiks var Selfoss skrefinu á undan en þegar nær dró leikslokum fóru hlutirnir að æsast. Jafnt var á nánast öllum tölum síðustu tíu mínúturnar og þegar átta sekúndur voru eftir jafnaði Guðjón Baldur Ómarsson 26-26 og tryggði Selfyssingum framlengingu.
Framlengingin var ekki fyrir hjartveika. Jafnt var á öllum tölum fyrri framlenginguna og það sama var uppi á teningnum í þeirri seinni, alveg þangað til í blálokin að Selfoss náði að búa til tveggja marka forskot, 33-35. Víkingar skoruðu síðasta markið en sigur Selfoss var ekki í hættu og Selfyssingar, innan vallar sem utan, fögnuðu sem trylltir væru þegar flautað var af.
Hannes Höskuldsson var markahæstur Selfyssinga með 9 mörk, Tryggvi Sigurberg Traustason skoraði 8, Guðjón Baldur Ómarsson 4, Sölvi Svavarsson og Jónas Karl Gunnlaugsson 3, Valdimar Örn Ingvarsson og Hákon Garri Gestsson 2 og þeir Elvar Elí Hallgrímsson, Jason Dagur Þórisson, Anton Breki Hjaltason og Árni Ísleifsson skoruðu allir 1 mark.
Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 15 skot í marki Selfoss og Alexander Hrafnkelsson 3.