Selfoss – ÍBV 0-2

Selfyssingar þurfa magnaða særingu til að kveða niður falldrauginn sem fylgt hefur liðinu í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í sumar. 0-2 tap gegn ÍBV í dag þýðir að liðið er nánast fallið.

Leikurinn í dag var virkilega bragðdaufur og lítið að gerast fram á við hjá Selfyssingum. Eyjamenn litu mun betur út í fyrri hálfleik og komust yfir strax á 7. mínútu. Úkraínumaðurinn Denis Sydnik lék Selfyssinga oft grátt í fyrri hálfleik og hann undirbjó markið sem Þórarinn Valdimarsson skoraði. Eyjamenn fengu tvö góð færi til viðbótar í fyrri hálfleik en Selfoss fann engar glufur á ÍBV vörninni og einu tilraunir þeirra voru langskot sem rötuðu ekki á rammann.

Selfyssingar voru öflugri framan af síðari hálfleik en færin létu á sér standa. Það var ekki fyrr en á 78. mínútu að Viðar Örn Kjartansson fékk fyrsta alvöru færi Selfoss en Albert Sævarsson varði nokkuð auðveldlega skot Viðars af markteig. Tveimur mínútum síðar fiskaði Andri Ólafsson víti fyrir Eyjamenn. Andri var með Agnar Braga í bakinu inni í teig og gerði ekkert til að standa í lappirnar. Albert markvörður fór á punktinn og skoraði af öryggi.

Selfoss hefur nú 14 stig á botni deildarinnar og er 6 stigum á eftir Grindavík þegar tvær umferðir eru eftir. Ef Selfoss ætlar að halda sæti sínu í deildinni þurfa þeir að vinna bæði Breiðablik og Grindavík í síðustu tveimur umferðunum – og vinna upp markamun Grindvíkinga en nú munar ellefu mörkum á liðunum. Miðað við spilamennsku liðsins í síðustu leikjum er ekkert sem bendir til þess að það gerist.

Byrjunarlið Selfoss: Jóhann Ólafur Sigurðsson (M,F), Sigurður Eyberg Guðlaugsson (Einar Ottó Antonsson +74), Agnar Bragi, Andri Freyr Björnsson, Ingþór Jóhann Guðmundsson (Sævar Þór Gíslason +65), Viktor Unnar Illugason, Martin Dohlsten, Guðmundur Þórarinsson (Arilíus Marteinsson +65), Viðar Kjartansson, Jón Daði Böðvarsson, Jón Guðbrandsson.

Fyrri greinStórleikur á Selfossvelli
Næsta greinBjörgunarmiðstöðin tilbúin 1. desember