Selfoss vann öruggan sigur á ÍR í Olísdeild karla í handbolta þegar liðin mættust í Breiðholtinu í kvöld. Lokatölur urðu 26-35.
ÍR skoraði tvö fyrstu mörkin en Selfoss jafnaði 4-4 og leit ekki til baka eftir það. Munurinn var þrjú mörk um miðjan fyrri hálfleikinn og Selfoss leiddi 13-17 í hálfleik.
Selfyssingar gerðu nánast út um leikinn með því að skora fyrstu fjögur mörkin í seinni hálfleikinn en þessi frábæra byrjun skilaði þeim 13-21 forystu. ÍR-ingar brotnuðu við þetta og Selfoss hafði góð tök á leiknum allan seinni hálfleikinn.
Ísak Gústafsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Atli Ævar Ingólfsson skoraði 6, Einar Sverrisson 5/2, Richard Sæþór Sigurðsson 4, Hannes Höskuldsson og Guðjón Baldur Ómarsson 3, Karolis Stropus, Tryggvi Sigurberg Traustason og Sverrir Pálsson 2 og Guðmundur Hólmar Höskuldsson 1. Vilius Rasimas varði vel í marki Selfoss, var með 14/1 skot varin og 44% markvörslu. Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 3 skot og var með 27% markvörslu.
Selfyssingar eru komnir með 9 stig í deildinni og lyftu sér upp í 2.-4. sætið með sigrinum í kvöld.