Selfoss Íslandsmeistari í futsal kvenna

Selfoss með sigurlaunin í Iðu í kvöld. Þjálfarar liðsins eru Jóhann Bjarnason og Trausti Rafn Björnsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tryggði sér í kvöld Íslandsmeistaratitilinn í futsal kvenna en seinni umferð Íslandsmótsins innanhúss fór fram í Iðu á Selfossi í dag.

Selfoss var með fullt hús stiga eftir fyrri umferðina, sem leikin var á Hvolsvelli fyrir mánuði síðan. Þær töpuðu ekki leik í seinni umferðinni í dag og tryggðu sér sigurinn með því að gera 1-1 jafntefli gegn Smára í næstsíðustu umferðinni.

Selfoss lauk keppni með 16 stig en Sindri frá Hornafirði varð í 2. sæti með 10 stig. Smári frá Kópavogi varð í 3. sæti og Knattspyrnufélag Rangæinga í 4. sæti.

Það var viðeigandi fyrir Selfyssinga að fagna titli í dag því knattspyrnudeild Selfoss á 69 ára afmæli í dag, var stofnuð 15. desember árið 1955.

Fyrri greinÞórir Evrópumeistari í sjötta sinn
Næsta greinVegleg gjöf frá Minningarsjóði Jennýjar Lilju