Það var stór stund í sögu Körfuknattleiksfélags Selfoss í vikunni þegar nítján drengir úr yngriflokkastarfi félagsins skrifuðu undir þriggja ára leikmannasamning.
Það gerir atburðinn enn stærri að þeir eru allir með tölu úr sama árganginum, fæddir 2006 og því á sextánda ári. Þetta er langfjölmennasti og öflugasti árgangurinn í sögu félagsins og hefur hann verið meðal allra bestu liðanna á landsvísu.
Í frétt frá Selfoss-Körfu segir að félagið hafi lengi beðið eftir því að fá fleiri leikmenn úr uppeldisstarfinu upp í meistaraflokkinn og nú er komið að því að strákar úr þessum árgangi fari að tínast inn í liðið og æfingahópinn, einn af öðrum, næstu misserin og árin.
„Það eru því sannarlega spennandi tímar handan við hornið á Selfossi, eftir of mörg mögur ár hvað þetta varðar, þegar aðeins einn og einn leikmaður hefur komið upp í meistaraflokksliðið,“ segja Selfyssingar.
Á myndinni efst í fréttinni eru (í efri röð frá vinstri) Hannes Kristinn Ívarsson, Sindri Snær Ólafsson, Hjalti Geir Jónsson, Ari Hrannar Bjarmason, Sigurður Logi Sigursveinsson, Birkir Hrafn Eyþórsson, Kristófer Logi Jóhannsson, Fróði Larsen Bentsson og Benjamín Rökkvi Sigvaldason. (Í neðri röð frá vinstri) Unnar Örn Magnússon, Böðvar Thor Guðmundsson, Dagur Nökkvi Hjaltalín Svöluson, Gísli Steinn Hjaltason, Tristan Máni Morthens, Birkir Máni Sigurðarson, Sigurður Darri Magnússon, Arnór Daði Viðarsson og Hjörvar Steinarsson. Á myndina vantar Benjamín Magnús Magnússon.