Selfoss Karfa setur kvennalið aftur á laggirnar

Guðbjörg Bergsveinsdóttir, formaður stjórnar, handsalar þjálfarasamninginn við Davíð Ásgrímsson. Ljósmynd/Selfoss Karfa

Körfuknattleiksfélag Selfoss hefur skráð lið til þátttöku í 1. deild kvenna á komandi keppnistímabili 2024/2025. Félagið hefur aðeins einu sinni verið með meistaraflokk kvenna en það var tímabilið 2013/2014 og því komin um 10 ár síðan síðast.

Skrifað hefur verið undir samning við þjálfara liðsins og mun Davíð Ásgrímsson leiða liðið í vetur. Davíð hefur starfað við félagið undanfarin ár við góðan orðstýr með yngri flokka, m.a. lenti 7.flokkur karla undir hans stjórn í öðru sæti Íslandsmótsins á liðnum vetri.

Liðið verður byggt á grunni kvenna af svæðinu auk þess að ungir og efnilegir iðkendur úr yngri flokkunum fá eflaust tækifæri til æfinga með meistaraflokk. Einnig eru áhugasamar konur hvattar til að setja sig í samband við þjálfara eða félagið ef þær hafið áhuga að taka þátt í starfinu í vetur.

„Það er félaginu gríðarlega mikilvægt að koma af stað meistaraflokki kvenna til að ungir og upprennandi körfuboltaiðkendur hafi enn fleiri flottar fyrirmyndir til að fylgjast með,“ segir í tilkynningu frá Selfyssingum.

Fyrri greinJónsmessuhátíðin á Eyrarbakka um helgina
Næsta greinStálu þeir öllum stelpunum?