Selfoss knúði fram oddaleik

Arna Kristín Einarsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann öruggan sigur á ÍR í fjórða leik liðanna í einvíginu um sæti í Olísdeild kvenna á næstu leiktíð. Lokatölur í Breiðholtinu urðu 22-31 og staðan í einvíginu er 2-2. Oddaleikurinn fer fram í Set-höllinni á Selfossi á miðvikudagskvöld.

Eftir tap í fyrstu tveimur leikjunum komu Selfyssingar af krafti inn í leik þrjú, þar sem þær unnu öruggan sigur. Það sama var uppi á teningnum í dag, Selfoss skoraði fyrstu fimm mörkin í leiknum og lét forystuna aldrei af hendi eftir það. Staðan í hálfleik var 8-17. Forskot Selfoss var öruggt allan seinni hálfleikinn og ekkert var í boði hjá þeim vínrauðu, annað en sigur.

Arna Kristín Einarsdóttir var markahæst Selfyssinga með 9 mörk, Roberta Stropé skoraði 5, Hulda Hrönn Bragadóttir og Tinna Soffía Traustadóttir 4, Katla María Magnúsdóttir 3, Tinna Sigurrós Traustadóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 2 og þær Karen Helga Díönudóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu 1 mark hvor.

Cornelia Hermansson varði 15 skot í marki Selfoss og Katrín Ósk Magnúsdóttir 2.

Fyrri greinKA tekur forystuna í einvíginu
Næsta greinSunnlendingar komu, sáu og sigruðu á Hellu