Selfoss náði í gott stig þegar HK kom í heimsókn á Selfossvöll í 1. deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Selfyssingar komu til baka eftir að hafa lent 0-2 undir.
HK var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og Selfyssingar gátu þakkað markverði sínum, Evu Ýr Helgadóttir, fyrir að staðan var aðeins 0-1 í hálfleik. HK komst yfir á 42. mínútu með skoti Brookelynn Entz vinstra megin úr teignum í þverslána og inn.
Gestirnir voru áfram líklegri í upphafi seinni hálfleiks og þær tvöfölduðu forystuna á 54. mínútu þegar Selfoss missti boltann á slæmum stað fyrir framan vítateiginn og Birna Jóhannsdóttir refsaði með marki.
Á 66. mínútu átti Eva Ýr stóra vörslu og aðeins mínútu síðar pressaði Katrín Ágústsdóttir værukæran markvörð HK og hirti af henni boltann og skoraði.
Við markið kviknaði löngu týndur neisti hjá Selfossliðinu sem tvíefldist í framhaldinu. Liðið sýndi hörkubaráttu út um allan völl en það var ekki fyrr en á 5. mínútu uppbótartímans sem jöfnunarmarkið leit dagsins ljós. Hólmfríður Magnúsdóttir þjarmaði þá að vörn HK og boltinn datt fyrir Soniu Rada sem lét vaða af 30 metra færi. Markvörður HK misreiknaði boltann og missti hann í gegnum hendur sér inn í markið.
Stigið gerir lítið á töflunni fyrir Selfyssinga en gefur þeim von og sýnir liðinu að það sé ekki öll nótt úti. LIðið hefur nú 11 stig og er áfram í fallsæti, þremur stigum á eftir Grindavík sem er í 8. sætinu.