Selfoss kom til baka og kláraði Kára

Gonzalo Zamorano á skot að marki í leiknum í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir í 32-liða úrslit í Mjólkurbikar karla í knattspyrnu eftir 3-1 sigur á 3. deildarliði Kára á Selfossvelli í kvöld.

Það blés ekki byrlega í fyrri hálfleik, Selfyssingum gekk lítið að sækja og Káramenn komust yfir á 19. mínútu með glæsilegu marki eftir snarpa sókn.

Staðan var 0-1 í hálfleik en leikur Selfyssinga batnaði til muna í seinni hálfleiknum og þeir skoruðu þrisvar á síðustu tuttugu mínútunum. Á 70. mínútu sendi Gonzalo Zamorano boltann þvert yfir völlinn þar sem Alfredo Ivan tók við honum hægra megin, óð inn í vítateig og negldi boltanum í nærhornið.

Á 78. mínútu vann Ívan Breki Sigurðsson boltann á miðjunni og tók á sprett fram völlinn. Boltinn barst á Aron Darra Auðunsson sem átti skot að marki sem markvörður Kára varði en Ívan var mættur til að hirða frákastið og skoraði af öryggi. Mínútu síðar unnu Selfyssingar boltann aftur á miðjunni, Alfredo geystist fram og sendi innfyrir á Zamorano sem lékk auðveldlega á varnarmann áður en hann renndi boltanum í netið.

Selfyssingar sigldu því nokkuð örugglega í 32-liða úrslitin og á morgun kemur í ljós hvort Árborg eða Ægir nái að fylgja þeim. Árborg tekur á móti Árbæ kl. 13 og Ægir mætir Haukum kl. 16. Báðir leikirnir verða spilaðir á gervigrasvellinum á Selfossi.

Fyrri greinÍR með kústinn á lofti
Næsta greinÁrborg og Ægir úr leik í bikarnum