Selfyssingar unnu 3-2 sigur á Haukum í lokaumferð 1. deildar karla í knattspyrnu í dag. Viðar Kjartansson skoraði tvö mörk og Joe Tillen eitt.
Það var að litlu að keppa fyrir liðin í þessum leik en Selfyssingar höfðu þegar tryggt sér sæti í Pepsi-deildinni fyrir þennan leik. Helst var talað um fyrir leikinn að Viðar Örn Kjartansson ætti séns á markakóngstitli deildarinnar og einnig var þetta síðasti leikur Sævars Þórs Gíslasonar fyrir félagið.
Þeir félagar byrjuðu saman í framlínu Selfoss í dag og var gamli maðurinn fyrirliði í tilefni dagsins. Leikurinn byrjaði með látum því strax á 5.mínútu var Viðar Örn búinn að koma sínum mönnum yfir eftir slæman misskilning milli varnarmanna Hauka og Daða Lárussonar í markinu. Þeir misstu boltann framhjá sér og beint á Viðar Örn sem þakkaði pent fyrir sig og lagði boltann í autt markið.
Stuttu seinna átti Ivar Skjerve gott færi fyrir Selfyssinga en Daði varði vel. Eftir þetta róaðist leikurinn aðeins og Haukar komu sér betur inn í spilið. Á 18.mínútu áttu Haukar stangarskot eftir þunga sókn og tíu mínútum seinna jafnaði Alieu Jagne metin með góðu skoti fyrir utan teig. Skotið var ekki fast en það silgdi af öryggi framhjá Jóhanni Ólafi og í bláhornið.
Á 32.mínútu voru Haukar nálægt því að komast yfir en skutu yfir úr úrvalsfæri. Mínútu seinna skoraði Viðar Örn aftur fyrir Selfoss og kom þeim í 2-1. Hann fékk boltann út við stöng eftir góða sendingu frá Joe Tillen og afgreiddi af öryggi í markið.
Selfyssingar héldu áfram að sækja eftir þetta og voru Joe Tillen og Viðar m.a. báðir nálægt því að bæta við marki áður en Viðar Örn náði að skora sitt þriðja mark eftir góðan undirbúning frá Sævari Þór. Markið var hinsvegar dæmt af vegna rangstöðu á Viðar og voru heimamenn mjög ósáttir við það, þó þeir væru reyndar flestir í mun verri stöðu en aðstoðardómarinn til að sjá atvikið.
Haukar nýttu sér vel pirringinn í heimamönnum og settu mark beint í andlitið á þeim rétt fyrir hlé. Hilmar Trausti fyrirliði Hauka tók þá aukaspyrnu rétt fyrir utan teig og klíndi henni í bláhornið. Frábært marki hjá Hilmari Trausta og staðan jöfn í hálfleik.
Haukar gerðu eina breytingu í hálfleik Daði Lárusson markmaður fór af velli fyrir Þórir Guðnason. Haukar voru nálægt því að komast yfir strax á 47.mínútu með þrumuskoti sem hafnaði í þverslánni á marki Selfoss. Strax í næstu sókn var brotið á Sævari Gíslasyni innan teigs og kannski við hæfi að hann næli í víti í sínum síðasta leik. Hann tók spyrnuna sjálfur en skotið var alls ekki gott og Þórir Guðnason varamarkmaður varði frá honum.
Á 66. mínútu var Sævar Þór tekinn af velli og hlaut hann mikið klapp frá áhorfendum. Sævar Þór var einnig hylltur vel og innilega eftir leik.
Leiðinlegasta atvik leiksins átti Alieu Jagne leikmaður Hauka er hann fékk beint rautt spjald á 78. mínútu fyrir að reyna að sparka Einar Ottó Antonsson niður í pirringskasti, beint fyrir framan nefið á Leikni Ágústssyni dómara. Fljótlega eftir þetta kláraði Joe Tillen leikinn með frábæru marki en hann vippaði boltanum yfir Þórð í markinu.
Fleira markvert gerðist ekki í leiknum og lokatölur 3-2. Selfyssingar hylltu bæði karla og kvennalið félagsins eftir leik en bæði leika í efstu deild á næsta ári.
Viðar Örn varð annar markahæsti leikmaður deildarinnar með 16 mörk en Þróttarinn Sveinbjörn Jónasson skoraði fjögur mörk í dag og varð markahæstur með 19 mörk.