Selfyssingar unnu stórsigur á Grindavík, 5-2, þegar liðin mættust í lokaumferð Pepsi-deildar karla á Selfossvelli í dag.
Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik, opinn í báða enda, en Selfyssingar fóru betur með sín færi. Viktor Unnar Illugason kom Selfyssingum yfir á 11. mínútu eftir góðan sprett Jóns Daða Böðvarssonar sem sendi innfyrir á Viktor.
Liðin skiptust síðan á að sækja og Grindvíkingar sluppu þrívegis einir inn í teig en tókst ekki að skora. Sævar Þór Gíslason tryggði sér síðan markakóngstitil Selfossliðsins með fimmta marki sínu í sumar á 30. mínútu. Boltinn barst út úr teignum á Sævar sem hamraði hann með vinstri í markhornið. Glæsilegasta mark Selfyssinga í sumar.
Grindvíkingar áttu fyrstu færi seinni hálfleiks en síðan tóku Selfyssingar leikinn í sínar hendur. Jón Daði Böðvarsson var yfirburðamaður í nýrri stöðu á miðjunni og hann var maðurinn bakvið flest mörk Selfyssinga. Á 57. mínútu tætti hann Grindavíkurvörnina í sig og renndi boltanum síðan á Ingþór Guðmundsson sem skoraði þriðja mark Selfoss.
Eftir þriðja markið gerðu Selfyssingar harða hríð að marki Grindavíkur en fjórða markið kom ekki fyrr en á 70. mínútu. Jóhann Ólafur átti þá langa markspyrnu sem endaði inni á vítateig Grindavíkur. Þar tók Viðar Örn Kjartansson boltann og afgreiddi hann örugglega í mark Grindavíkur.
Fimm mínútum síðar komu Grindvíkingar til baka. Scott Ramsay átti þá töfrasendingu innfyrir á Gilles Ondo sem slapp í gegn og skoraði. Þremur mínútum síðar átti Viðar Örn hörkuskot í stöng.
Lokamínútur leiksins voru fjörugar. Davíð Birgisson skoraði fimmta mark Selfoss á 88. mínútu eftir góðan undirbúning Jóns Daða og Viðars. Mínútu síðar minnkaði Ondo muninn fyrir Grindavík og tryggði sér þar með gullskó Pepsi-deildarinnar.
Mínútu síðar flautaði Örvar Sær Gíslason, dómari, leikinn af. Selfyssingar gengu sáttir af velli eftir besta leik sinn í sumar, en því miður sýndu þeir allt of seint hvað í þeim býr sóknarlega. Aðeins 211 áhorfendur mættu á Selfossvöll í dag en meðalaðsókn á völlinn hefur verið rúmlega 1000 manns.