Selfyssingar halda sínu striki og sitja sem fastast í 3. sæti 1. deildar karla í handbolta eftir 27-30 sigur á ÍH á útivelli í dag.
Leikurinn var jafn í upphafi en Selfoss náði fjögurra marka forskoti um miðjan fyrri hálfleik og staðan í hálfleik var 13-16.
Í seinni hálfleik var nokkuð um mistök hjá Selfyssingum, sem misstu niður forskotið og hleyptu ÍH inn í leikinn.
Þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka náði ÍH að jafna 25-25 og æsispennandi lokamínútur framundan. Selfyssingar reyndust hins vegar sterkari á lokasprettinum og lönduðu þriggja marka sigri.
Markahæstir í liði Selfoss voru Atli Kristinsson með 7 mörk, Hörður Másson með 6 mörk og Einar Sverrisson var með 5 mörk. Sverrir Andrésson átti ágætan leik en hann stóð í marki Selfoss allan leikinn ef frá er talið eitt víti sem Sebastian Alexandersson gerði heiðarlega tilraun til að verja.
Selfoss hefur 23 stig í 3. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir Stjörnunni og fimm stigum á eftir Aftureldingu sem eru efstir. Næsti leikur liðsins er á heimavelli, föstudaginn 7. mars þegar Hamrarnir frá Akureyri mæta.