Selfoss lagði KR

Karlalið Selfoss í knattspyrnu lék sinn fyrsta æfingaleik í gær undir stjórn Loga Ólafssonar. Selfoss lagði KR 4-3.

Selfyssingar byrjuðu betur og kom Jón Daði Böðvarsson þeim yfir á 18. mínútu með skallamarki eftir hornspyrnu. KR jafnaði fimmtán mínútum síðar og komst svo yfir á 38. mínútu en Jón Daði jafnaði rétt fyrir leikhlé. Staðan var 2-2 í hálfleik.

Ingi Rafn Ingibergsson kom inná sem varamaður í upphafi síðari hálfleiks og hann átti heldur betur eftir að láta að sér kveða. Ingi Rafn skoraði tvö glæsileg mörk og kom Selfoss í 4-2 en KR klóraði í bakkann með einu marki í lokin.

Byrjunarlið Selfoss var eftirfarandi: Jóhann Ólafur, Sigurður Eyberg, Auðun, Kjartan, Andri Freyr, Agnar Bragi, Ingólfur, Arilíus, Ingþór, Jón Daði og Viðar Örn.

Nokkra leikmenn vantaði í Selfossliðið t.d Stefán Ragnar, Sævar Þór, Einar Ottó, Jón Sveins, Henning Eyþór og Jón Guðbrands.

Auðun Helgason, nýráðinn aðstoðarþjálfari, spilaði sinn fyrsta leik fyrir Selfoss eins og Guðmundur Ármann Böðvarsson, sem var markahæsti leikmaður Árborgar og 3. deildarinnar sl. sumar.

Fyrri greinMikil hálka á Suðurlandi
Næsta greinSluppu lítið meidd úr bílveltu