Selfoss vann góðan sigur á Bestudeildarliði KA í Lengjubikar karla í knattspyrnu, í Boganum á Akureyri í dag, 2-3.
KA hóf leikinn á stórsókn og áttu Selfyssingar í vök að verjast. Þeir stóðu þó af sér áhlaupið og komust yfir á 22. mínútu, þvert á gang leiksins. Jón Vignir Pétursson átti þá frábæra sendingu fram völlinn, innfyrir vörn KA, þar sem Gary Martin fór framhjá markverði KA og renndi boltanum í tómt markið.
Fimm mínútum síðar sendi Martin boltann innfyrir á Valdimar Jóhannsson sem átti gott skot að marki. Markvörður KA varði en frákastið barst hins vegar út í teiginn og þar kom Danijel Majkic á ferðinni og þrumaði knettinum í netið.
Á 42. mínútu fengu KA-menn vítaspyrnu þegar Adam Örn Sveinbjörnsson braut af sér í teignum og úr spyrnunni minnkuðu þeir muninn í 1-2.
Þannig stóðu leikar í hálfleik en á þriðju mínútu seinni hálfleiks komust Selfyssingar í 1-3 eftir góða pressu og enn betra spil. Gonzalo Zamorano batt endahnútinn á sóknina eftir stoðsendingu frá Aroni Darra Auðunssyni.
KA minnkaði muninn þegar rúmt korter var eftir af leiknum. Markið kom uppúr þurru, en Gunnar Geir Gunnlaugsson, markvörður Selfoss, missti þá skot frá KA manni á milli fóta sér og boltinn fór innfyrir línuna.
Selfyssingar vörðust vel á lokakaflanum og héldu nokkuð auðveldlega aftur af KA-mönnum og lokatölur urðu 2-3.
Þetta var síðasti leikur Selfoss í Lengjubikarnum. Liðið er með 6 stig í 4. sæti síns riðils. Framarar geta farið upp fyrir Selfoss en þeir eiga leik til góða gegn botnliði Grindavíkur.