Selfoss lauk keppni með fullt hús stiga

Perla Ruth Albertsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss í handbolta lauk keppni á Íslandsmótinu í dag þegar liðið heimsótti FH í Kaplakrika í Hafnarfirði. Þar vann liðið enn einn stórsigurinn, 21-42.

Staðan var orðin 1-7 eftir sjö mínútna leik og Selfoss náði tíu marka forskoti, 4-14, þegar 14 mínútur og 14 sekúndur voru liðnar af leiknum. Þar með var ljóst í hvað stefndi. Staðan í hálfleik var 13-22 og Selfoss sló ekkert af í seinni hálfleiknum og sigraði að lokum með 21 marks mun.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 12 mörk, Harpa Valey Gylfadóttir skoraði 9, Arna Kristín Einarsdóttir 8, Hulda Dís Þrastardóttir 4, Tinna Sigurrós Traustadóttir 3, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Hulda Hrönn Bragadóttir 2 og þær Rakel Guðjónsdóttir og Inga Sól Björnsdóttir skoruðu 1 mark hvor. Cornelia Hermansson varði 13 stig í marki Selfoss.

Selfoss hafði algjöra yfirburði í 1. deildinni í vetur. Þær unnu alla átján leikina og fengu 36 stig, átta stigum meira en Grótta sem varð í 2. sæti. Selfoss vann flesta leikina með miklum mun enda lauk liðið keppni með markatöluna +316.

Fyrri greinKFR náði í stig – Uppsveitir mættu ekki til leiks
Næsta greinNý stjórn hjá kjördæmafélagi Miðflokksins