Dregið var í 8 liða úrslitum í Borgunarbikarkeppni karla og kvenna í hádeginu í dag og voru bæði meistaraflokkslið Selfoss í pottinum.
Fyrst var dregið í kvennaflokki og fékk Selfoss útileik gegn ÍBV. Þessi lið mættust í Vestmannaeyjum í Pepsi-deild kvenna í vor og unnu Selfyssingar þann leik, 0-1. ÍBV er nú í 7. sæti Pepsi-deildar með þrjú stig eftir fjóra leiki, en Selfoss er í 5. sæti með sex stig.
Í karlaflokki voru sex lið úr Pepsi-deildinni í pottinum, auk tveggja liða úr Inkasso-deildinni, næst efstu deild. Svo fór að liðin tvö úr Inkasso-deildinni, Selfoss og Fram, drógust gegn hvoru öðru. Liðin, sem eru bæði með níu stig eftir sex leiki í deildinni, munu mætast á heimavelli Fram.
Leikurinn í kvennaflokki verður leikinn 4. eða 5. júlí, en leikurinn í karlaflokki verður 3. eða 4. júlí.