Selfoss hafnaði í 3. sæti 1. deildar karla í handbolta og mætir Stjörnunni í 1. umferð umspils um sæti í efstu deild. Þetta varð ljóst eftir að lokaumferð 1. deildarinnar fór fram í kvöld.
Selfoss tapaði fyrir Aftureldingu á útivelli, 25-23 í spennuleik, á meðan Stjarnan vann ÍH örugglega. Afturelding fór því upp um deild en Selfoss og Stjarnan fara í umspil ásamt ÍR og Gróttu.
Leikurinn að Varmá í kvöld var jafn og spennandi. Staðan var 13-13 í hálfleik en Selfyssingar höfðu frumkvæðið megnið af síðari hálfleik. Selfoss hafði fjögurra marka forskot, 17-21, á lokakaflanum en Afturelding jafnaði 21-21 þegar sex mínútur voru eftir. Staðan var jöfn, 23-23, þegar þrjár mínútur voru eftir en heimamenn voru hins vegar klókari undir lokin og Selfoss náði ekki að skora á lokamínútunum.
Andri Már Sveinsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Einar Sverrisson, Andri Hrafn Hallsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu 3, Atli Einar Hjörvarsson, Hörður Másson og Sverrir Pálsson 2 og Atli Kristinsson 1.
Einvígi Selfoss og Stjörnunnar hefst þann 24. apríl í Garðabæ. Leikur tvö verður á Selfossi laugardaginn 26. apríl og ef með þarf verður þriðji leikurinn í Garðabæ 29. apríl.