Selfoss mætir Hamri í undanúrslitum

Terrence Motley skoraði 23 stig fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir í undanúrslit 1. deildar karla í körfubolta eftir 70-79 útisigur á Sindra frá Hornafirði í þriðju viðureign liðanna í 8-liða úrslitum deildarinnar.

Selfyssingar unnu einvígið gegn Sindra 2-1 og mæta Hamri í undanúrslitunum. Fyrsta viðureign liðanna fer fram í Hveragerði á sunnudag.

Leikurinn á Hornafirði var jafn lengst af. Staðan var 34-42 fyrir Selfoss í hálfleik, Sindramenn svöruðu fyrir sig í 3. leikhluta en Selfyssingar voru sterkari á lokakaflanum og sigruðu.

Terrence Motley var stigahæstur Selfyssinga með 23 stig og Kennedy Aigbogun skoraði 18, auk þess sem hann tók 12 fráköst.

Í hinni undanúrslitaviðureigninni mætast Vestri og Skallagrímur.

Tölfræði Selfoss: Terrence Motley 23/9 fráköst, Kennedy Aigbogun 18/12 fráköst, Sveinn Búi Birgisson 15/7 fráköst, Kristijan Vladovic 11/4 fráköst/7 stoðsendingar, Gunnar Steinþórsson 5, Arnór Bjarki Eyþórsson 4, Aljaz Vidmar 3.

Fyrri greinSelfyssingar komnir á blað
Næsta greinDabetic jafnaði fyrir Ægi