Selfoss mætir nígeríska landsliðinu í æfingaleik

Lið Selfoss ásamt þjálfurum í æfingabúðunum á Spáni. Ljósmynd/María G. Arnardóttir

Kvennalið Selfoss í knattspyrnu mætir nígeríska kvennalandsliðinu í æfingaleik á Pinatar æfingasvæðinu á Spáni á morgun, föstudag.

„Mér líst ótrúlega vel á þetta verkefni og er mjög spenntur fyrir þessum leik. Það verður mikið ævintýri fyrir okkur að mæta liði sem er að fara að spila á heimsmeistaramótinu í sumar og klárlega mikil reynsla fyrir okkur,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is.

Selfossliðið er í æfingaferð á Spáni þessa vikuna á Pinatar æfingasvæðinu sem er skammt sunnan við Torrevieja. Alfreð segir að ferðin hafi gengið vel.

„Já, það gengur ótrúlega vel og stelpurnar eru duglegar að æfa. Við æfum tvisvar á dag við bestu aðstæður og stemmningin í hópnum er mjög góð.“

Leikur Selfoss og Nígeríu hefst kl. 15:00 á morgun, eða kl. 17:00 að staðartíma á Spáni.

Nígeríska landsliðið er ríkjandi Afríkumeistari en liðið er á leið á sitt áttunda heimsmeistaramóti í röð. Liðið er í 38. sæti heimslista FIFA þessa stundina.

Fyrri greinFrábært Ungmennaþing í Rangárþingi ytra
Næsta greinTokic skaut Selfyssingum í úrslitaleikinn