Selfoss dróst á móti Stjörnunni í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handbolta en dregið var í hádeginu í dag.
Selfoss, sem leikur í 1. deildinni, hefur slegið út tvö úrvalsdeildarlið á leið sinni í undanúrslitin og þarf að sigra þriðja úrvalsdeildarliðið til þess að komast í úrslitaleikinn.
Úrslitahelgi bikarkeppninnar fer fram í Laugardalshöll 6.–10. mars næstkomandi. Undanúrslit kvenna verða fimmtudaginn 7. mars og úrslitaleikirnir fara fram laugardaginn 9. mars. Leikur Stjörnunnar og Selfoss verður kl. 20:15 en á undan mætast ÍR og Valur kl. 18.
Þetta er annað árið í röð sem kvennalið Selfoss kemst í undanúrslit en liðið tapaði gegn ÍBV í fyrra og Eyjakonur stóðu að lokum uppi sem bikarmeistarar.