Selfoss mættar til leiks á Íslandsmótinu

Selfossstelpurnar voru brattar eftir leik þrátt fyrir úrslitin. Ljósmynd/Veiga Dögg Magnúsdóttir

Selfyssingar léku sinn fyrsta leik á Íslandsmótinu í 1. deild kvenna í körfubolta gærkvöldi en eins og kunnugt er var meistaraflokkur kvenna endurvakinn á Selfossi í sumar.

Selfoss heimsótti Ármann í Laugardalshöllina og þar reyndust heimakonur sterkari. Ármann komst í 15-3 á upphafsmínútunum en staðan var 30-15 að loknum 1. leikhluta. Selfyssingar hresstust í 2. leikhluta og náðu að minnka muninn í átta stig en þá stigu Ármenningar aftur á bensíngjöfina og staðan var 51-32 þegar hálfleiksflautan gall.

Ármenningar voru atkvæðameiri í seinni hálfleiknum og bættu jafnt og þétt við forskotið en Selfyssingar sýndu fína takta inn á milli. Lokatölur urðu 90-53.

Eva Rún Dagsdóttir var atkvæðamest Selfyssinga með 14 stig og 7 fráköst.

Tölfræði Selfoss: Eva Rún Dagsdóttir 14/7 fráköst, Anna Katrín Víðisdóttir 12, Sigríður Svanhvít Magnúsdóttir 9/5 fráköst, Eva Margrét Þráinsdóttir 7, Perla María Karlsdóttir 4/4 fráköst/5 stoðsendingar, Lilja Heiðbjört Valdimarsdóttir 3/4 fráköst, Elín Þórdís Pálsdóttir 2, Diljá Salka Ólafsdóttir 2, Karólína Waagfjörð Björnsdóttir 2 fráköst, Kolbrún Katla Halldórsdóttir 1 frákast.

Fyrri greinNýtt lag frá hljómsveitinni HAGL
Næsta greinGóður lokasprettur dugði til sigurs