Selfoss með tvenn bronsverðlaun

Úrslit í fjölþraut Íslandsmótsins í hópfimleikum fór fram í Ásgarði í Garðabæ í gær. Kvennalið Selfoss HM1 átti mjög góða keppni og vann tvenn bronsverðlaun.

Kvennalið Selfoss HM1 átti mjög góða keppni en þær fengu yfir 15 stig á öllum áhöldum sem er mjög gott. Þær sýndu fínar æfingar á dýnu og trampólínið var glæsilegt þar sem þær fengu verðskuldað 15,8 sitg. Dansinn var einnig mjög glæsilegur en það var mjög jafnt á með liðunum í dansi að þessu sinni. Aðeins skildu 0,25 stig á milli 1. og 4. sætis en lið Gerplu A var með 15,85 stig og lið Selfoss í 4. sæti með 15,60 stig.

Í dag fara fram úrslit á einstökum áhöldum en þrjú efstu liðin á hverju áhaldi komast áfram. Selfoss komst áfram á dýnu og trampólíni en það munaði aðeins hársbreidd eins og áður sagði í dansinum.

Úrslit dagsins urðu þau að Gerpla A fékk 49,15 stig, Stjarnan 48,00 stig, Selfoss 46,50 stig, Gerpla B 43,55 stig, Ármann 43,35 stig og Gerpla C 39,90 stig.

Lið Selfoss HM1 er að lang stærstum hluta skipað sömu stelpum og hafa keppt undanfarin ár en t.d. má nefna að Arna Hjartardóttir sem ól barn í október var mætt til keppni sem og hin mamman í liðinu, Linda Ósk Þorvaldsdóttir. Aðeins er ár síðan að Arna tilkynnti liðsfélögum sínum á þessu móti fyrir ári að hún væri komin 16 vikur á leið og hún er mætt spræk í gallan á ný eins og hún hafi aldrei farið!

Selfoss HM1 skipuðu í gær þær Arna Hjartardóttir, Ágústa Gísladóttir, Dagbjört Sævarsdóttir, Eva Grímsdóttir, Hugrún Hlín Gunnarsdóttir, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, Jóhanna Runólfsdóttir, Katrín Ösp Jónasdóttir, Kristín Magnúsdóttir, Linda Ósk Þorvaldsdóttir, Margrét Lúðvigsdóttir, Rakel Nathalie Kristinsdóttir, Unnur Þórisdóttir og Þyrí Imsland.

Blandað lið Selfoss varð í þriðja sæti með 37,65 stig. Krakkarnir áttu ágætis mót þó svo dýnan hafi verið betri á síðasta móti. Þrjú lið í hverjum flokki fara í úrslit á áhöldum og þar sem það kepptu aðeins þrjú lið í flokki blandaðra liða þá fór Selfoss mix liðið í úrslit á öllum áhöldum. Úrslitin hjá mixliðunum urðu þau að Stjarnan/Ármann mix varð efst með 44,70 stig, Gerpla mix fékk 42,25 stig og Selfoss mix 37,65 stig.

Fyrri greinViltu teikna? Katrín Briem leiðbeinir
Næsta greinJafntefli í toppslag