Selfyssingar þurfa eitt stig úr síðustu þremur leikjum sínum í 2. deild karla í knattspyrnu til þess að tryggja sér sæti í 1. deildinni að ári. Selfoss vann góðan 2-1 útisigur á Haukum í Hafnarfirði í kvöld.
Gonzalo Zamorano kom Selfyssingum yfir strax á 2. mínútu leiksins þegar hann setti boltann í netið eftir klafs í teig heimamanna. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks voru Haukar sterkari en náðu ekki að skora.
Zamorano tvöfaldaði svo forskot Selfyssinga í upphafi síðari hálfleiks af vítapunktinum eftir að brotið var á Aroni Fannari Birgissyni í vítateignum. Haukar minnkuðu muninn undir lok leiks en komust ekki lengra.
Þrjár umferðir eru eftir af deildinni og Selfyssingar mæta næst Hetti/Huginn á Selfossvelli næstkomandi laugardag kl. 14:00.