Selfoss með bakið upp við vegg

Hergeir Grímsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir með bakið upp við vegg í einvíginu gegn Val í undanúrslitum Íslandsmótsins í handbolta. Liðin mættust í öðrum leik sínum á Selfossi í kvöld og Valur vann öruggan sigur, 29-35. Valsmenn leiða því 2-0 í einvíginu.

Leikurinn var jafn og stórskemmtilegur í fyrri hálfleik en staðan var 15-16 í leikhléi. Leikhléið virtist koma á versta tíma fyrir Selfyssinga sem voru á skriði undir lok fyrri hálfleiks en misstu alveg dampinn í upphafi seinni hálfleiks. Valsmenn byrjuðu hann af krafti og náðu fljótlega fimm marka forskoti.

Það reyndist erfitt fyrir Selfyssinga að ætla sér að brúa það bil og Valsmenn héldu þeim í öruggri fjarlægð allan seinni hálfleikinn.

Þriðji leikur liðanna fer fram að Hlíðarenda á sunnudagskvöld og þar verða Selfyssingar að ná sigri, annars eru þeir komnir í sumarfrí.

Richard Sæþór Sigurðsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Atli Ævar Ingólfsson skoraði 6, Árni Steinn Steinþórsson 5, Alexander Már Egan 3, Hergeir Grímsson 3/1, Karolis Stropus og Ragnar Jóhannsson 2 og Guðmundur Hólmar Helgason 1. Vilius Rasimas stóð vaktina vel í markinu og varði 17/2 skot.

Fyrri greinSÁÁ Álfurinn leggur Suðurland undir sig
Næsta greinÓtrúleg byrjun á Íslandsmótinu