Selfyssingar töpuðu í kvöld í öðrum leiknum í einvíginu gegn ÍR í 8-liða úrslitum 1. deildar karla í körfubolta, 78-90.
ÍR leiðir því 2-0 í einvíginu og Selfoss þarf að vinna næstu þrjá leiki ætli þeir sér að komast í undanúrslit deildarinnar. Liðin mætast næst í Breiðholtinu á föstudagskvöld.
ÍR byrjaði leikinn í kvöld af miklum krafti og staðan í hálfleik var orðin 42-59. Selfoss klóraði í bakkann í seinni hálfleik en ÍR-ingar héldu þeim í hæfilegri fjarlægð allan tímann. Selfoss náði að minnka muninn í 77-84 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum en nær komust þeir ekki.
Tykei Greene var stigahæstur Selfyssinga með 32 stig og 8 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 15 stig og tók 9 fráköst, Ísar Jónasson skoraði 14 stig, Vojtech Novák 12 auk þess sem hann tók 7 fráköst og Tristan Rafn Ottósson skoraði 5 stig.