Selfoss með betri uppskeru úr kartöflugarðinum

Breki Baxter skoraði og fiskaði víti. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann gríðarlega mikilvægan sigur á KF á erfiðum útivelli á Ólafsfirði í 2. deild karla í knattspyrnu í dag.

Völlurinn á Ólafsfirði er líkari kartöflugarði en grasvelli og það voru Selfyssingar sem héldu kampakátir heim eftir uppskerustörfin með þrjú stig í pokanum.

Leikurinn var markalaus í fyrri hálfleik en á þriðju mínútu síðari hálfleiks skoraði Breki Baxter fyrsta mark Selfoss með góðu skoti utan teigs, í stöngina og inn.

Sjö mínútum síðar átti Aron Fannar Birgisson góða fyrirgjöf frá hægri og Alfredo Ivan Arguello var mættur fremstur inn á vítateiginn og potaði boltanum laglega í netið.

Sóknir Selfoss héldu áfram og á 69. mínútu var brotið á Breka innan vítateigs. Fyrirliðinn Jón Vignir Pétursson fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi, 3-0. Það voru síðan heimamenn sem áttu lokaorðið, þeir klóruðu í bakkann á 90. mínútu og lokatölur urðu 3-1.

Selfoss er sem fyrr á toppi deildarinnar með 19 stig og KF er á botninum með 3 stig.

Fyrri greinKatrín kláraði leikinn fyrir Selfoss
Næsta greinGöngumaður slasaðist á Valahnúk