Selfoss vann góðan sigur á KFA í 2. deild karla í knattspyrnu í dag en leikið var á grasvellinum á Selfossi.
Heimamenn komust yfir á 29. mínútu. Eftir mikið klafs í vítateig KFA upp úr hornspyrnu barst boltinn á Jose Manuel Lopez á fjærstönginni og hann skoraði með góðu skoti.
Staðan var 1-0 í hálfleik og Selfyssingar komust í enn betri mál þegar rúmt korter var liðið af seinni hálfleiknum. Aron Lucas Vokes skoraði þá af stuttu færi eftir góðan undirbúning Breka Baxter.
Selfoss hafði góð tök á leiknum lengst af en spenna hljóp í viðureignina á lokakaflanum þegar KFA minnkaði muninn á 80. mínútu eftir slæman misskilning í vörn Selfyssinga.
Fleiri urðu mörkin þó ekki og Selfoss er áfram með fullt hús eftir þrjár umferðir, einir á toppnum með 9 stig en Ægir, Haukar og Víkingur Ó þar fyrir neðan með 7 stig. Næsta viðureign Selfoss er einmitt gegn Víkingi í Ólafsvík næstkomandi laugardag.