Selfyssingum mistókst að komast í toppsæti Olísdeildar karla í handbolta í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Fram á útivelli, 27-25.
Það var jafnt á nánast öllum tölum í fyrri hálfleik og staðan var 12-12 í leikhléi. Það sama var uppi á teningnum framan af seinni hálfleik en þegar fimm mínútur voru eftir skoruðu Framarar tvö mörk í röð og náðu tveggja marka forystu. Selfyssingum tókst ekki að minnka muninn á lokakaflanum og því fór sem fór.
Atli Ævar Ingólfsson og Sveinn Aron Sveinsson voru markahæstir Selfyssinga með 5 mörk, en Sveinn Aron skoraði 2 af vítalínunni. Einar Sverrisson skoraði 4 mörk, Tryggvi Þórisson, Guðmundur Hólmar Helgason og Ragnar Jóhannsson 3 og þeir Hergeir Grímsson og Nökkvi Dan Elliðason skoruðu sitt markið hvor.
Vilius Rasimas varði 11 skot í marki Selfoss og var með 28% markvörslu.
Selfoss er í 3. sæti deildarinnar með 11 stig en Fram er í 7. sæti með 9 stig.