Selfoss missti flugið í seinni hálfleik

Donasja Scott skoraði 18 stig fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti Stjörnuna-U í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld. Eftir frábæran fyrri hálfleik Selfyssinga fór allt á verri veg í þeim seinni og Stjarnan-U sigraði 67-64.

Selfoss byrjaði leikinn af krafti, komst í 4-18 og staðan var 12-23 að loknum 1. leikhluta. Munurinn varð mestur 15 stig í 2. leikhluta og Selfoss hafði örugga forystu í hálfleik, 27-40.

Í upphafi seinni hálfleiks fór allt í skrúfuna hjá Selfyssingum, sem skoruðu aðeins fjögur stig á níu mínútna kafla. Stjörnukonur tóku á sprett og komust yfir áður en leikhlutinn var úti, 47-46. Selfoss náði ekki neinu flugi eftir þetta, þær eltu Stjörnuna allan 4. leikhluta og náðu að minnka muninn í þrjú stig á lokamínútunni. Nær komust þær ekki og niðurstaðan svekkjandi tap.

Donasja Scott var stiga- og framlagshæst hjá Selfyssingum í kvöld með 18 stig og 13 fráköst. Valdís Una Guðmannsdóttir skoraði 11 stig og Vilborg Óttarsdóttir var sterk undir körfunni með 10 fráköst.

Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 6 stig en Stjarnan-U er í 3. sæti með 10 stig.

Stjarnan-U – Selfoss 67-64 (12-23, 15-17, 20-6, 20-18)
Tölfræði Selfoss: Donasja Scott 18/13 fráköst, Valdís Una Guðmannsdóttir 11, Anna Katrín Víðisdóttir 8/7 fráköst, Vilborg Óttarsdóttir 6/10 fráköst/6 stolnir, Eva Rún Dagsdóttir 5, Perla María Karlsdóttir 4/5 fráköst, Sigríður Svanhvít Magnúsdóttir 4, Þóra Auðunsdóttir 3, Elín Þórdís Pálsdóttir 3, Eva Margrét Þráinsdóttir 2.

Fyrri greinVatnavextir víða á Suðurlandi