Selfoss missti niður gott forskot

Guðjón Baldur Ómarsson var markahæstur Selfyssinga með 10 mörk í 10 skotum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði 32-31 gegn Aftureldingu á útivelli í Olísdeild karla í handbolta í kvöld. Úrslitin réðust á síðustu sekúndunni.

Eftir rólegar upphafsmínútur breyttu Selfyssingar stöðunni út 2-2 í 3-6 og héldu þeir þriggja marka forskoti allan fyrri hálfleikinn. Munurinn varð reyndar mestur fjögur mörk, 9-13, en staðan var 12-15 í hálfleik.

Selfyssingar byrjuðu vel í seinni hálfleik og náðu fimm marka forskoti, 17-22, en þá fóru hlutirnir hægt og bítandi að fara á verri veg. Afturelding jafnaði 26-26 þegar tæpar tólf mínútur voru eftir af leiknum og komst yfir í kjölfarið. Við tók æsispennandi lokakafli og þegar 40 sekúndur voru eftir jafnaði Guðjón Baldur Ómarsson fyrir Selfyssinga, 31-31.

Afturelding hékk á boltanum síðustu sekúndurnar og Vilius Rasimas varði vel í marki Selfoss í lokasókninni. Frákastið fór hins vegar í hendur Aftureldingar og Einar Ingi Hrafnsson skoraði sigurmark heimamanna á síðustu sekúndunni.

Guðjón Baldur Ómarsson var markahæstur Selfyssinga með 10 mörk úr 10 skotum, Einar Sverrisson skoraði 9/4, Ísak Gústafsson og Hergeir Grímsson 3, Richard Sæþór Sigurðsson og Atli Ævar Ingólfsson 2 og þeir Guðmundur Hólmar Helgason og Hannes Höskuldsson skoruðu 1 mark hvor.

Vilius Rasimas varði 8/1 skot í marki Selfoss og var með 22% markvörslu.

Selfoss er áfram í 6. sæti deildarinnar með 15 stig en Afturelding fór upp í 7. sætið með 14 stig.

Fyrri greinÓður til Árborgar
Næsta greinAppelsínugul viðvörun á Suðurlandi