Kvennalið Selfoss í knattspyrnu tapaði óvænt fyrir ÍBV á útivelli í Pepsi Max deildinni í knattspyrnu í dag.
Selfyssingar réðu lögum og lofum í fyrri hálfleik og leiddu 0-2 í hálfleik. Tiffany McCarty kom Selfossliðinu yfir strax á 3. mínútu þegar hún skallaði sendingu frá Clöru Sigurðardóttur í netið. Selfoss fékk áfram að sækja og uppskar vítaspyrnu á 23. mínútu eftir að boltinn fór í höndina á leikmanni ÍBV innan vítateigs. Dagný Brynjarsdóttir fór á punktinn og skoraði af öryggi.
Hvort Selfyssingar hafi talið að tveggja marka forskot myndi duga skal ósagt látið en þeir mættu að minnsta kosti ekki til leiks í seinni hálfleik. ÍBV var sterkari aðilinn og þær minnkuðu muninn strax á 50. mínútu. Sóknarleikur Selfyssinga gekk illa og ÍBV sneri leiknum sér í hag með tveimur mörkum á síðustu fimm mínútum leiksins. Ótrúlegur viðsnúningur og lokatölur 3-2.
Með sigrinum lyfti ÍBV sér upp úr fallsæti, í 6. sætið með 9 stig, einu stigi á eftir Selfyssingum sem eru í 4. sætinu.