Selfyssingar gerðu 1-1 jafntefli við Þór Akureyri þegar liðin mættust á Þórsvellinum í kvöld. Arnór Ingi Gíslason jafnaði fyrir Selfoss með síðustu spyrnu leiksins.
„Þetta var gott stig. Við höfum spilað betur en baráttan í lokin var til fyrirmyndar og segir allt um hjartað í liðinu okkar,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.
Nokkuð stífur sunnanvindur setti mark sitt á leikinn en Þórsarar sóttu með vindinn í bakið í fyrri hálfleik. Þeir fengu fyrsta góða færi leiksins á 17. mínútu en annars voru upphafsmínúturnar rólegar.
Gunnar Stefánsson kom svo Þórsurum yfir á 30. mínútu með skallamarki eftir aukaspyrnu. Selfyssingar hresstust nokkuð undir lok fyrri hálfleik en tókst ekki að skora.
Selfyssingar voru sterkari í síðari hálfleik en tókst ekki að skapa sér álitleg færi. Á lokakaflanum þyngdust sóknir þeirra vínrauðu verulega en inn á milli áttu Þórsarar góða spretti, meðal annars skalla í þverslána.
Í uppbótartíma þjörmuðu Selfyssingar verulega að Þórsurum og stíflan brast loksins á 94. mínútu. Selfyssingar fengu hornspyrnu og eftir mikið klafs í vítateignum fór boltinn í þverslána á marki Þórs og þaðan út í teig. Þar tók Arnór Ingi við honum og skoraði. Búið.
Selfyssingar eru áfram í 6. sæti deildarinnar, nú með 21 stig. Þór er í 5. sætinu með 23 stig.
Lið Selfoss hélt akandi til Akureyrar á langferðabíl í morgun. Nú verður haldið áfram hringinn og dvalið á Eiðum í tvo daga áður en liðið mætir Fjarðabyggð á Eskifirði á föstudagskvöld.