Selfoss náði ekki að stöðva Fram-U

Katla María Magnúsdóttir skoraði 4 mörk í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti ungmennalið Fram, ósigrað topplið Grill 66 deildar kvenna í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 26-21.

Ekkert hefur getað stöðvað Fram-U í deildinni í vetur en næstu lið á eftir geta huggað sig við það að ungmennaliðið getur ekki farið upp í efstu deild, þar sem Fram á þegar lið í Olísdeildinni.

Fram-U hefur 22 stig í efsta sæti en þar á eftir koma FH með 17 stig og Selfoss með 16.

Framliðið hafði undirtökin í leiknum í dag, leiddi 14-11 í leikhléi og munurinn jókst um tvö mörk í síðari hálfleik.

Hulda Dís Þrastardóttir og Katla María Magnúsdóttir voru markahæstar Selfyssinga með 4 mörk, Agnes Sigurðardóttir, Hólmfríður Arna Steinsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu allar 3 mörk, Sigríður Lilja Sigurðardóttir skoraði 2 og þær Tinna Traustadóttir og Elín Krista Sigurðardóttir skoruðu sitt markið hvor.

Henriette Østergård varði 11 skot í marki Selfoss og var með 30% markvörslu.

Markahæst í liði Fram-U var hin Selfossættaða Lena Margrét Valdimarsdóttir en hún gerði sér lítið fyrir og skoraði 15 mörk, eða 58% marka liðsins.

Fyrri greinRafmagnslaust í Mýrdalnum – Lokað um Reynisfjall
Næsta greinReykræstu hús í Hveragerði