Selfoss og Ægir unnu sína leiki í 2. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Stigin voru báðum liðum mikilvæg þó þau berjist á ólíkum stað á töflunni.
Selfoss tók á móti KF á Jáverk-vellinum og hafði mikla yfirburði í fyrri hálfleiknum. Nacho Gil kom þeim yfir eftir snarpa sókn á 16. mínútu og korteri síðar tvöfaldaði Alfredo Arguello forskotið. Staðan var 2-0 í hálfleik og snemma í seinni hálfleik virtist Aron Fannar BIrgisson hafa innsiglaði öruggan sigur með góðu marki, 3-0. En svo var ekki. Eftir þriðja markið slökuðu Selfyssingar all hressilega á og KF skoraði tvívegis á síðustu fimm mínútum leiksins. Uppbótartíminn var æsispennandi, þar sem gestirnir voru líklegri til að jafna en Selfyssingar héldu út og fögnuðu sigri, 3-2.
Ægismenn sigla nú lygnan sjó í neðri hluta deildarinnar eftir 0-1 sigur á Kormáki/Hvöt á Blönduósi í kvöld. Leikurinn var tíðindalítill í fyrri hálfleik og hvorugu liðinu tókst að koma boltanum í netið. Það var ekki fyrr en á 76. mínútu að það dró til tíðinda og Bjarki Rúnar Jónínuson skoraði eina mark leiksins og tryggði Ægi sigurinn, sem lyfti þeim upp fyrir Kormák/Hvöt á töflunni.
Selfoss er með 41 stig í efsta sæti deildarinnar og þurfa líklega einn sigur í viðbót til þess að tryggja sig upp um deild. Völsungur, Þróttur Vogum, Víkingur Ó og KFA eru í einum hnapp þar fyrir neðan. Ægir er í 8. sæti með 21 stig, sex stigum fyrir ofan öruggt sæti þegar fjórar umferðir eru eftir.