Kvennalið Selfoss gaf toppsætið í úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir til Breiðabliks í kvöld en Blikar sigruðu 0-4 þegar liðin mættust á Selfossvelli.
Leikurinn var færður yfir á gervigrasvöllinn á síðustu stundu þar sem línurnar á grasvellinum sáust illa eftir úrhellis rigningu á Selfossi í allan dag. Liðunum var boðið að fresta leiknum en þau tóku slaginn og þar reyndust Blikar sterkari.
Breiðablik komst yfir á 10. mínútu með glæsimarki Öglu Maríu Albertsdóttur og á 40. mínútu kom Taylor Ziemer þeim í 0-2 með þrumuskoti. Selfyssingar fengu varla færi í fyrri hálfleik, svo talist gæti.
Heimakonur mættu mun ákveðnari inn í seinni hálfleikinn en gekk illa að skapa sér góð færi. Þær stýrðu leiknum og börðust mun betur en í fyrri hálfleiknum en sóknarleikurinn var ekki nógu skarpur.
Blikar komu svo aftan að Selfyssingum með tveimur mörkum á síðustu fjórum mínútum leiksins. Karitas Tómasdóttir skallaði boltann í netið á 86. mínútu og Birta Georgsdóttir skoraði fjórða markið með síðustu snertingu leiksins á 90. mínútu.
Selfoss hefur setið í toppsæti deildarinnar í allt sumar en Blikar hirtu það í kvöld og hafa 15 stig en Selfoss er í 3. sæti með 13 stig. Þar á milli er Valur með 14 stig.