Selfoss niður í tíunda sæti og fær 100 þúsund króna sekt

Reynir Freyr Sveinsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Grindavík hefur verið dæmdur 3-0 sigur gegn Selfossi í Lengjudeild karla í knattspyrnu í viðureign sem Selfyssingar unnu 5-3 á heimavelli á dögunum.

Í leiknum notaði Selfoss leikmann sem átti að vera í leikbanni, bakvörðinn Reyni Frey Sveinsson. Reynir Freyr var á láni hjá Árborg í 4. deildinni framan af sumri og safnaði þar þremur gulum spjöldum. Hann fékk svo sitt fjórða gula spjald með Selfyssingum í leik gegn Fjölni þann 28. ágúst og var því dæmdur í eins leiks bann á fundi aganefndar KSÍ þann 30. ágúst.

Selfyssingar virðast ekki hafa gert sér grein fyrir þessu, þrátt fyrir tilkynningu aganefndar um leikbannið, svo að Reynir var í byrjunarliði Selfoss í leiknum gegn Grindavík þann 3. september.

Í úrskurði aga- og úrskurðarnefndar kemur fram að samkvæmt greinargerð Selfyssinga hafi ekki verið um ásetning að ræða að spila umræddum leikmanni, heldur var um að ræða yfirsjón innan félagsins við viðtöku úrskurðar aganefndar. Því óskuðu Selfyssingar eftir því að vægustu viðurlögum yrði beitt en KSÍ getur sektað félög um allt að 300 þúsund krónur fyrir brot sem þessi.

Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur tekið málið fyrir og dæmt Grindvíkingum 3-0 sigur auk þess sem Selfoss þarf að greiða 100 þúsund króna sekt til KSÍ. Grindavík fer þar með upp í 6. sæti deildarinnar en Selfyssingar niður í það tíunda.

Fyrri greinHættulegar sprengjur í umferð á Selfossi
Næsta greinD-listinn vill áfram loftborið hús