Selfyssingar töpuðu 3-1 þegar þeir mættu Val í A-deild Lengubikars karla í knattspyrnu í kvöld í Egilshöllinni. Í C-deildinni tapaði Árborg fyrir Skínanda.
Valsmenn fengu vítaspyrnu á 31. mínútu þegar Bernard Brons felldi Björgólf Takefusa í vítateignum. Björgólfur fór sjálfur á punktinn og skoraði.
Staðan var 1-0 í hálfleik en Kristinn Freyr Sigurðsson bætti tveimur mörkum við fyrir Val á fyrstu fimmtán mínútum síðari hálfleiks.
Á 66. mínútu fékk Selfyssingurinn Markús Árni Vernharðsson rautt spjald þegar hann braut á leikmanni sem var sloppinn í gegnum vörn Selfoss.
Manni færri náðu Selfyssingar að klóra í bakkann en Joseph Yoffe minnkaði muninn í 3-1 á 82. mínútu.
Selfoss er í 6. sæti síns riðils með 6 stig.
Í C-deildinni tók Árborg á móti Skínanda og tapaði 0-5 á Selfossvelli. Árborg er í 4. sæti síns riðils með 4 stig.