Selfoss og Stjarnan gerðu 22-22 jafntefli í 2. umferð Ragnarsmóts kvenna í handbolta í Set-höllinni á Selfossi í kvöld.
Selfoss var skrefinu á undan stærstan hluta leiksins en staðan í hálfleik var 11-9. Stjarnan jafnaði í upphafi seinni hálfleiks en þá komu fimm mörk í röð frá Selfyssingum, sem breyttu stöðunni í 16-11. Stjarnan jafnaði þegar mínúta var eftir og Selfyssingum tókst ekki að nýta síðustu sóknina.
Katla María Magnúsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, Rakel Guðjónsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu 4, Roberta Stropé 3, Hulda Hrönn Bragadóttir og Inga Sól Björnsdóttir 2 og Kristín Una Hólmarsdóttir 1.
Í hinum leik kvöldsins sigraði Fram ÍBV 30-27 en í fyrrakvöld vann Fram Stjörnuna 29-20. Það mun því ráðast í leik Selfoss og Fram á laugardaginn hvort liðið sigrar á Ragnarsmótinu í ár.
Leikir laugardagsins eru Stjarnan-ÍBV kl. 12:00 og Selfoss-Fram kl. 14:00.