Selfoss og Hamar með sigra – Hrunamenn töpuðu

Ísak Júlíus Perdue. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Hamar unnu örugga sigra í leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld á meðan Hrunamenn töpuðu gegn toppliði Álftaness.

Selfoss tók á móti Þór Akureyri og vann öruggan sigur, 114-68. Staðan í hálfleik var 53-36. Munurinn jókst um tuttugu stig í 3. leikhluta, þar sem Selfyssingar voru frábærir í vörn og sókn og þegar yfir lauk skildu 46 stig liðin að. Arnaldur Grímsson var stigahæstur Selfyssinga með 26 stig og Srdan Stojanovic var sömuleiðis öflugur, með 18 stig og 8 fráköst.

Í Borgarnesi mættust Skallagrímur og Hamar. Hamarsmenn voru sterkari í leiknum og juku forskotið jafnt og þétt allan leikinn. Staðan í hálfleik var 46-54 og Hvergerðingar gáfu ekkert eftir í seinni hálfleik, lokatölur urðu 88-101. Hamarsmenn fengu gott framlag úr öllum áttum en Jose Aldana var stigahæstur með 39 stig og 5 stoðsendingar.

Topplið Álftaness var í heimsókn á Flúðum. Hrunamenn byrjuðu af krafti og leiddu 27-15 eftir 1. leikhluta en í 2. leikhluta gekk lítið upp hjá þeim og Álftanes leiddi 35-37 í hálfleik. Gestirnir höfðu frumkvæðið í seinni hálfleiknum og sigruðu að lokum 78-87.

Staðan í deildinni er þannig að Hamar er í 3. sæti með 8 stig, Selfoss er í 5. sæti með 6 stig og Hrunamenn eru í 8. sæti með 4 stig.

Tölfræði Selfoss: Arnaldur Grímsson 26/4 fráköst, Srdan Stojanovic 18/8 fráköst, Ísak Júlíus Perdue 15, Dusan Raskovic 14/8 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson 13, Kennedy Aigbogun 8/5 fráköst, Ísar Freyr Jónasson 6/6 stoðsendingar, Styrmir Jónasson 5, Sigmar Jóhann Bjarnason 4, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 3, Noah Glen Saa 2.

Tölfræði Hamars: Jose Medina 39/5 stoðsendingar, Alfonso Birgir Gomez 21/5 fráköst, Björn Ásgeir Ásgeirsson 21/5 fráköst/7 stoðsendingar, Ragnar Nathanaelsson 12/18 fráköst/5 varin skot, Daði Berg Grétarsson 5/6 fráköst, Daníel Sigmar Kristjánsson 3.

Tölfræði Hrunamanna: Ahmad Gilbert 27/13 fráköst/5 stolnir, Samuel Burt 18/11 fráköst, Friðrik Heiðar Vignisson 14, Óðinn Freyr Árnason 8, Eyþór Orri Árnason 7/5 fráköst/7 stoðsendingar, Haukur Hreinsson 2, Yngvi Freyr Óskarsson 2/4 fráköst.

Fyrri greinÖruggt hjá Hamri á heimavelli
Næsta greinKvenfélag Selfoss gaf sundlaugunum leikföng