Selfoss og Hrunamenn með góða sigra

Corey Taite var allt í öllu hjá Hrunamönnum og Sveinn Búi Birgisson skoraði 16 stig fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Það er æsispenna í 1. deild karla í körfubolta en eftir leiki gærkvöldsins eru fjögur lið með 12 stig í toppslagnum og næstu lið þar fyrir aftan stutt á eftir.

Selfoss vann góðan liðssigur á Vestra á heimavelli í gærkvöldi, 104-92. Leikurinn var jafn framan af en Selfoss leiddi 47-42 í hálfleik og heimamenn voru svo sterkari á lokakafla leiksins. Selfyssingar fengu framlag úr öllum áttum en Kristijan Vladovic var stigahæstur með 21 stig, Terrence Motley skoraði 19 stig og tók 10 fráköst, Sveinn Búi Birgisson skoraði 16 stig og það sama gerði Kennedy Aigbogun og hann tók 13 fráköst að auki.

Hrunamenn unnu einnig góðan sigur á Sindra á Flúðum. Hrunamenn byrjuðu vel í leiknum og leiddu 51-32 í hálfleik. Sindramenn þjörmuðu að þeim í seinni hálfleik en Hrunamönnum tókst að verja forskotið og sigra 94-89. Corey Taite átti stórleik fyrir Hrunamenn, skoraði 41 stig og sendi 6 stoðsendingar. Yngvi Freyr Óskarsson skoraði 19 stig og tók 9 fráköst.

Hamar lék heimaleik gegn Skallagrími og þar tókst Hvergerðingum ekki að sigra í jöfnum leik. Staðan var 52-46 í hálfleik og leikurinn var í járnum allan síðari hálfleikinn. Gestirnir voru sterkari á lokasprettinum og sigruðu naumlega, 93-95. Michael Philips skoraði 29 stig fyrir Hamar og tók 11 fráköst. Ragnar Ragnarsson sokraði 21 stig.

Hamar er í efsta sæti deildarinnar með 12 stig, eins og Álftanes, Breiðablik og Sindri. Hrunamenn og Selfoss eru í 8. og 9. sæti með 6 stig, eins og Fjölnir.

Fyrri greinAlmar vill leiða lista VG í Suðurkjördæmi
Næsta greinÆgi gekk illa upp við rammann