Selfoss og Hrunamenn töpuðu heima

Ísak Júlíus Perdue. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og Hrunamenn töpuðu leikjum sínum í 1. deild karla í körfubolta í kvöld. Selfoss tók á móti Sindra og Hrunamenn fengu Þrótt í heimsókn.

Sindri var skrefinu á undan í 1. leikhluta á Selfossi og leiddu að honum loknum, 20-29. Selfoss jafnaði 37-37 í 2. leikhluta en komst ekki lengra og Sindramenn höfðu forystuna í hálfleik, 45-52. Þriðji leikhlutinn var hnífjafn en Sindramenn vörðu forskot sitt og staðan var 70-76 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Þar hélt Sindri örugglega aftur af Selfyssingum og lokatölur urðu 85-97.

Michael Asante var stigahæstur Selfyssinga með 23 stig og 10 fráköst, Birkir Hrafn Eyþórsson skoraði 20 stig, Ísak Júlíus Perdue 14 og Geir Helgason 11.

Meiri þróttur í gestunum
Á Flúðum fengu Hrunamenn Þrótt Vogum í heimsókn og þar unnu gestirnir öruggan sigur. Staðan var 19-26 að loknum 1. leikhluta og Þróttarar juku forskotið fyrir hálfleik, 48-58. Endalega skildi á milli liðanna í 3. leikhluta þar sem lítið gekk upp hjá Hrunamönnum og Þróttur komst í 65-89. Hrunamenn áttu ekki möguleika á endurkomu og Þróttur sigraði 78-106.

Chancellor Calhoun-Hunter var stigahæstur Hrunamanna með 30 stig og 14 fráköst, Aleksi Liukko skoraði 18 stig og tók 15 fráköst og Eyþór Orri Árnason skoraði 12 stig.

Sunnlensku liðin eru í neðri hluta töflunnar í 1. deildinni; Selfyssingar í 9. sæti með 4 stig og Hrunamenn í 11. sæti með 2 stig.

Fyrri greinBrotnir tengdamömmudraumar
Næsta greinÖruggt hjá Þór gegn botnliðinu