Selfoss vann öruggan sigur á HK þegar liðin mættust í 16-liða úrslitum Coca-Colabikars kvenna í handbolta í Digranesi í kvöld.
Leikurinn fór hægt af stað en Selfoss skoraði fyrsta mark leiksins og lét forystuna aldrei af hendi. Selfyssingar komust í 1-3 eftir rúmar tíu mínútur og bættu svo smátt og smátt við forskotið. Staðan var 5-11 í hálfleik.
Um miðjan seinni hálfleikinn var munurinn orðinn tíu mörk, 9-19, og ljóst hvert stefndi. Selfoss hélt tíu marka forystunni allt þar á síðustu fimm mínútum leiksins að HK minnkaði muninn og að lokum skildu átta mörk liðin að, 18-26.
Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 7/1 mark, Dijana Radojevic skoraði 5, Perla Albertsdóttir og Ída Magnúsdóttir 3 og Hulda Dís Þrastardóttir 3/1. Adina Ghidoarca, Kristrún Steinþórsdóttir, Carmen Palamariu og Arna Einarsdóttir komust líka allar á blað með eitt mark hver.
Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 15 skot í marki Selfoss og var með 60% markvörslu. Áslaug Ýr Bragadóttir varði 1 skot og var með 11% markvörslu.