Selfyssingar áttu ekki í miklum vandræðum með að sigra 3. deildarlið Árbæjar í undanúrslitum neðrideildarbikars KSÍ, fotbolti.net bikarnum. Lokatölur á Selfossvelli í dag urðu 4-1.
Selfoss komst yfir strax á 6. mínútu þegar Gonzalo Zamorano veiddi boltann upp í vítateignum og hamraði hann í netið. Tuttugu mínútum síðar tvöfaldaði Alexander Clive Vokes muninn með gullfallegri vippu yfir markvörð gestanna eftir stoðsendingu frá Aroni Fannari Birgissyni.
Staðan var 2-0 í hálfleik og yfirburðir Selfoss héldu áfram í seinni hálfleiknum. Árbæingar áttu þó sínar stundir og fengu tvö góð færi til að minnka muninn áður en Aron Fannar bætti þriðja marki Selfoss við á 80. mínútu eftir sendingu frá Zamorano. Tveimur mínútum síðar klóraði Árbær í bakkann en forskoti Selfyssinga var ekki ógnað frekar og þeir bættu við fjórða markinu á 90. mínútu. Aron Fannar átti þá góðan sprett og sendi fyrir á Zamorano sem skoraði.
Selfoss mætir KFA í úrslitaleiknum á Laugardalsvelli næstkomandi föstudagskvöld en KFA vann Tindastól í undanúrslitunum í dag, 2-1.