Selfoss örugglega inn í 8-liða úrslitin

Nacho Gil skoraði í sínum fyrsta leik fyrir Selfoss. Ljósmynd/UMFS

Selfyssingar eru komnir í 8-liða úrslit neðrideildabikarsins, fotbolti.net-bikarsins, eftir öruggan sigur á Knattspyrnufélagi Garðabæjar í 16-liða úrslitum á Selfossvelli í kvöld.

Selfyssingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og nýjasti leikmaður þeirra, Nacho Gil, kom þeim yfir með góðu marki strax á 10. mínútu þegar hann fékk sendingu innfyrir frá Alexander Vokes. Selfoss hélt áfram að sækja og á 25. mínútu kom Gonzalo Zamorano þeim í 2-0 og aftur var það Alexander sem átti stoðsendinguna. Selfyssingar hefðu getað aukið forskotið enn frekar í fyrri hálfleiknum en staðan var 2-0 í hálfleik.

Gestirnir úr Garðabæ svöruðu fyrir sig á fyrsta korterinu í seinni hálfleik og minnkuðu muninn í 2-1 á 56. mínútu. Nær komust gestirnir ekki og þá var komið að Alexander Vokes að skora, hann gerði út um leikinn þegar tuttugu mínútur voru eftir með góðu skoti rétt fyrir utan vítateig.

Selfyssingar verða því í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslitin á morgun, ásamt KFA, Kára, Tindastól, Haukum, Augnabliki, Árbæ og Vængjum Júpíters.

Fyrri greinHSK/Selfoss sigraði örugglega á MÍ 11-14 ára
Næsta greinGina Tricot opnar í Smáralind í nóvember